Ungt fólk kaus í strætisvagni

Í kringum 130 nemendur í 10. bekk nokkurra grunnskóla í Reykjavík tóku þátt í lýðræðislegum kosningum framan við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu á Lýðræðishátíð unga fólksins. Valið stóð á milli fjögurra málefna, sem rætt var um áður en gengið var til kosninga. 

Kjörklefinn var nýstárlegur en afar hentugur til kosninga. Þetta var strætisvagn og gengur nemendurnir inn um dyrnar að framan til að kjósa en út að kosningu lokinni. 

Kosningin var liður í Lýðræðishátíð unga fólksins, sem er fyrri hluti af ráðstefnunni Fundur fólksins, sem Almannaheill stendur fyrir. Reykjavíkurborg lánaði kjörkassana. Kjörseðlarnir voru líka með óvenjulegu sniði. Ekki voru flokksbókstafir á seðlunum heldur átti að setja X við það málefni sem kjósendum þótti skipta mestu máli. 

Fundur fólksins fór fram eftir hádegið og stóð fram eftir degi. Þar var leitast við að efla lýðræði og samfélagsþáttöku með samtali milli frjálsra félagasamtaka, stjórnmálafólks og almennings. Á meðal málefna voru málstofur um bálstofur, geðheilbrigðismál, velferð barna, starfsumhverfi almannaheilla félaga, forvarnir gegn krabbameini og kosninga hegðun Íslendinga. Þá voru fimmtán almannaheillafélög með kynningarbása. Alls tóku 30 aðildarfélög Almannaheilla þátt í viðburðinum.

Lokahnykkur ráðstefnunnar voru pallborðsumræður stjórnmálaflokkanna en þar sátu fullrúar flokkanna fyrir svörum.

Fundur fólksins og Lýðræðishátíð unga fólksins eru styrkt af Reykjavíkurborg og Félags- og vinnumálaráðuneytinu. Fundur fólksins er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og frítt er á alla viðburði dagsins. 

Hér má sjá fleiri myndir frá Lýðræðishátíð unga fólksins.